Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 280 . mál.


931. Breytingartillögur



við frv. til l. um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.

Frá umhverfisnefnd.



    1. gr. orðist svo:
                  Óheimilt er að brenna sinu nema á jörðum sem eru í ábúð eða nýttar af ábúendum lögbýla og þá samkvæmt leyfi sýslumanns og að fylgt sé ákvæðum í reglugerð, sbr. 4. gr.
    Í stað 2. gr. komi tvær nýjar greinar er orðist svo:
         
    
    (2. gr.)
                            Aldrei má brenna sinu þar sem almannahætta stafar af eða tjón getur hlotist af á náttúruminjum, fuglalífi, mosa, lyng- eða trjágróðri og mannvirkjum.
         
    
    (3. gr.)
                            Ábúendur jarða geta einir fengið leyfi til að brenna sinu á jörðum, sbr. 1. gr., enda sé það gert fyrir 1. maí ár hvert að uppfylltum skilyrðum í reglugerð, sbr. 4. gr. Eftir þann tíma er hvarvetna óheimilt að brenna sinu. Þó getur sýslumaður, að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið, ákveðið aðra dagsetningu ef sérstakar veðurfarslegar ástæður gefa tilefni til.
    3. gr., er verði 4. gr., orðist svo:
                  Í reglugerð, sem umhverfisráðherra setur að fenginni umsögn Búnaðarfélags Íslands og Náttúruverndarráðs, skal mælt fyrir um hver skilyrði ábúanda, sbr. 3. gr., skuli sett, m.a. um skyldu til að tilkynna hlutaðeigandi slökkviliðsstjóra, eftirlit með brennu og annað sem nauðsynlegt þykir.
    4. gr., er verði 5. gr., orðist svo:
                  Óheimilt er að kveikja eld á víðavangi þar sem almannahætta getur stafað af eða hætt er gróðri, dýralífi eða mannvirkjum.
                  Skylt er hverjum þeim sem ferðast um að gæta ýtrustu varkárni í meðferð elds.
                  Sá sem verður þess var að eldur er laus á víðavangi skal svo fljótt sem auðið er gera aðvart umráðamanni lands eða hlutaðeigandi yfirvaldi.
    Í stað orðanna „sem hlýst af“ í niðurlagi 5. gr., er verði 6. gr., komi: sem af hlýst.